4. október 2023 kl. 16:56
Íþróttir
Fótbolti

HM karla í fótbolta í þremur heimsálfum árið 2030

HM karla í fótbolta árið 2030 verður haldið í sex löndum í þremur heimsálfum. FIFA staðfesti í dag að gestgjafalöndin verði Spánn og Portúgal í Evrópu, Marokkó í Afríku og Úrúgvæ, Argentína og Paragvæ í Suður-Ameríku.

Lionel Messi
EPA

„Í sundruðum heimi munu FIFA og fótbolti sameina,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA við þetta tilefni. Hann bætti við að það væri við hæfi að fagna aldarafmæli heimsmeistaramótsins með þessum hætti því fyrsta mótið fór fram í Úrúgvæ árið 1930. Setningarleikur mótsins verður af því tilefni í Montevideo í Úrúgvæ, næstu leikir í Argentínu og Paragvæ og restin af leikjunum á þessu 48 þjóða heimsmeistaramóti færast svo yfir til Evrópu og Afríku.

FIFA staðfesti jafnframt að árið 2034 verði aðeins teknar til greina umsóknir um að halda HM karla í Asíu og Eyjaálfu.