Athugið að þessi frétt er meira en 1 árs gömul

Samantekt

Ísland með flottan sigur í Wales

1. desember 2023 kl. 21:54

Segjum þessu þá lokið í kvöld

Við þökkum samfylgdina í kvöld. Hægt er að horfa á leikinn í spilaranum hér fyrir ofan.

Fyrir neðan er svo umfjöllun um leikinn, viðtöl við þjálfara og leikmenn og finna má klippur af mörkunum og öðrum færum.

1. desember 2023 kl. 21:42

Viðtal við Diljá Ýr Zomers

1. desember 2023 kl. 21:36

Glódís Perla var ánægð með sigurinn

1. desember 2023 kl. 21:35

Viðtal við Þorstein landsliðsþjálfara

1. desember 2023 kl. 21:24

Flottur sigur staðreynd

Ísland stillti upp óbreyttu liði frá 0-2 tapinu gegn Þýskalandi.

Heimakonur í Wales byrjuðu leikinn af meiri krafti og þær íslensku misstu boltann oft á hættulegum stöðum. Sem betur fer fyrir Ísland voru þær velsku ekki nægilega nákvæmar í sóknarleik sínum og tókst því ekki að skapa alvarlega hættu við mark Íslands.

Það var því aðeins gegn gangi leiksins þegar Ísland skoraði fyrsta markið á 29. mínútu. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir átti þá flotta skiptingu yfir á vinstri kantinn þar sem Sandra María Jessen var mætt. Hún lagði boltann til baka á Sædísi Rún Heiðarsdóttur sem átti þessa fínu fyrirgjöf.

Hlín Eiríksdóttir fékk boltann í sig inn í teig og þá mætti Hildur Antonsdóttir á svæðið og henni tókst að pota boltanum í markið. Hennar fyrsta landsliðsmark í tíunda landsleiknum.

Eftir markið sótti lið Wales nokkuð, Telma Ívarsdóttir þurfti að verja eitt ágætt skot en annars voru sóknir þeirra ekki beittar. Ísland fór því með 0-1 forystu inn í hálfleikinn.

Unnum okkur inn í seinni hálfleikinn

Seinni hálfleikur fór svipað af stað og sá fyrri, Wales var meira með boltann en skapaði lítið.

Hægt og bítandi vann Ísland sig inn í leikinn, Hlín Eiríksdóttir var í nokkur skipti að gera sig líklega og í eitt skiptið kom hún boltanum í netið. Markið var þó dæmt af þar sem Hlín fékk hann nokkrum sinnum í höndina í aðdragandanum.

Diljá Ýr Zomers kom inn á síðasta hálftímann og á 79. Mínútu skoraði hún. Hún fékk þá laglega sendingu frá Karólínu Leu og keyrði í átt að vítateig og lét vaða á markið. Frábært skot í fjærhornið, algjörlega óverjandi. Þetta var, líkt og hjá Hildi, fyrsta landsliðmark Diljár.

Það hægðist nokkuð á leiknum eftir þetta en Elise Hughes skoraði sárabótarmark fyrir Wales í uppbótartíma. Það dugði þó skammt því flautað var til leiksloka skömmu síðar og íslenskur sigur staðreynd.

Ísland mun því leika í umspilinu um sæti í A-deild fyrir undankeppni EM en Wales endar í neðsta sæti riðilsins og verður því í B-deild.

1. desember 2023 kl. 21:18

Lokaflautið í Cardiff

1. desember 2023 kl. 21:18

Mark Wales á 90+4. mínútu

1. desember 2023 kl. 21:09

Wales minnkar muninn rétt fyrir leikslok

Svekkjandi að fá á sig mark en ekki hægt að segja að það hafi verið ósanngjarnt.

Elise Hughes skorar með fínum skalla en skömmu síðar er flautað til leiksloka.

Fínn 2-1 sigur Íslands og liðið því á leið í umspil gegn liði úr B-deild um sæti í A-deild í undankeppni EM. Wales þarf að bíta í það súra epli að vera fallið í B-deild.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta eftir leik við Þýskaland í Þjóðadeildinni í október 2023.
Íslenska kvennalandsliðiðMummi Lú

1. desember 2023 kl. 20:57

Mark Diljár Ýrar

Virkilega vel gert hjá henni!

1. desember 2023 kl. 20:55

Varnarsinnuð síðasta skipting Íslands

Arna Sif Ásgrímsdóttir kemur inn á í stað Hafrúnar Rakelar Halldórsdóttur. Það á að þétta pakkann.

1. desember 2023 kl. 20:53

Diljá Ýr tvöfaldar forystuna!

Diljá Ýr Zomers skorar sitt fyrsta landsliðsmark! Frábært skot fyrir utan teig sem Olivia Clark, markvörður Wales, á ekki möguleika á. Aftur byrjar Karólína Lea sóknina með flottri sendingu.

2-0!

Diljá Ýr Zomers eftir leik íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta við Þýskaland í Þjóðadeildinni í október 2023.
Diljá Ýr ZomersMummi Lú

1. desember 2023 kl. 20:46

Lítið að gerast en Ísland skiptir aftur

Leikurinn róast aðeins síðustu mínútur.

Bryndís Arna Níelsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir mæta á völlinn.

Þær koma í stað Hlínar Eiríksdóttur og Hildar Antonsdóttur, markaskorara.

1. desember 2023 kl. 20:37

Fyrstu skiptingarnar

Guðný Árnadóttir og Diljá Ýr Zomers koma inn á.

Sandra María Jessen og Guðrún Arnardóttir víkja af velli.

1. desember 2023 kl. 20:35 – uppfært

Mark dæmt af Íslandi

Ísland er farið að ógna meira. Hætta skapaðist eftir horn en af einhverjum ástæðum dæmdi dómarinn aukaspyrnu.

Hlín Eiríksdóttir kom svo boltanum í netið en réttilega dæmd hendi á hana. Þetta lítur þó betur út, í það minnsta sóknarlega!

1. desember 2023 kl. 20:23

Seinni hálfleikur er farinn í gang

Um fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik og aftur er Wales að ógna meira. Kannski ekki hægt að segja að markið liggi í loftinu en Ísland þarf að finna betri takt.

1. desember 2023 kl. 20:19

Hálfleiksviðtal við markaskorarann

Hildur Antonsdóttir mætti í viðtal til Eddu Sifjar í hálfleik. Hún var tilfinningarík.

1. desember 2023 kl. 20:17

Þýskaland 2-0 yfir í hálfleik gegn Dönum

Danmörk var með fullt hús stiga fyrir leik kvöldsins en er lent 2-0 undir í Þýskalandi. Þetta þýðir að eins og staðan er núna er innbyrðisviðureign liðana hnífjöfn og því þyrfti heildarmarkatölu til að gera upp á milli þeirra. Það er þó auðvitað nóg eftir.

Alexandra Popp og Marina Hegering skoruðu mörk Þjóðverja.

Þýska fótboltakonan Alexandra Popp fagnar marki sínu gegn Danmörku í Þjóðadeild Evrópu.
Alexandra Popp fagnar marki sínuEPA / Clemens Bilan

1. desember 2023 kl. 20:05

Ísland leiðir með einu í hálfleik

Það er kominn hálfleikur hér í Wales þar sem Ísland skoraði eina mark fyrri hálfleiks.

Lið Wales verið meira með boltann og ógnað meira en í raun ekki skapað nein hættuleg færi. Ísland þarf að fækka mistökum aftarlega á vellinum þar sem leikmenn hafa verið að missa boltann á hættulegum stöðum en annars lítur þetta ágætlega út.

1. desember 2023 kl. 19:51 – uppfært

Mark Hildar

Glæsilega gert hjá Hildi. Í fyrstu virðist jafnvel vera um sjálfsmark að ræða en þegar betur er að gáð má sjá tá Hildar pota boltanum í markið.

1. desember 2023 kl. 19:48 – uppfært

Ísland skorar fyrsta markið!

Ísland er komið yfir og það var Hildur Antonsdóttir sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark!

Fínt spil hjá Íslandi og Sædís Rún Heiðarsdóttir kom með fína fyrirgjöf sem Hlín Eiríksdóttir kom mjöðminni í. Boltinn var laus í teignum og Hildur var fyrst að átta sig og náði að pota boltanum í markið.

Hildur Antonsdóttir í leik Íslands og Danmerkur í Þjóðadeild Evrópu í október 2023
Hildur AntonsdóttirRÚV / Mummi Lú

1. desember 2023 kl. 19:40

Bæði lið að ógna

Hlín Eiríksdóttir átti fyrsta skot Íslands á markið og strax í kjölfarið skapaðist hætta við mark Íslands. Wales vildi fá víti en réttilega ekkert dæmt.

1. desember 2023 kl. 19:31

Wales líklegra

Tæpt korter búið af leiknum og þær velsku hafa verið líklegri. Smá klaufagangur tvívegis í vörn Íslands en Wales ekki tekist að nýta sér hann.

Karólína Lea fékk hættulegasta færi Íslands til þessa en skot hennar fór þó nokkuð fram hjá markinu.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í leik Íslands og Danmerkur í Þjóðadeild Evrópu í október 2023
Karólína Lea VilhjálmsdóttirRÚV / Mummi Lú

1. desember 2023 kl. 19:16

Leikurinn er farinn af stað

Ísland byrjar með boltann hér í kuldanum í Wales.

Áfram Ísland!

1. desember 2023 kl. 18:43

Stofan er hafin!

Útsending er hafin á RÚV og í spilaranum hér að ofan.

Helga Margrét, Adda Baldurs og Mist Edvards fara yfir leikinn eins og þeim einum er lagið.

1. desember 2023 kl. 18:24 – uppfært

Óbreytt byrjunarlið frá síðasta leik

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, gerir enga breytingu frá síðasta leik gegn Þýskalandi.

Byrjunarlið Íslands gegn Wales í Þjóðadeildinni
Byrjunarlið ÍslandsKSÍ

1. desember 2023 kl. 17:28

Heimavöllur Cardiff klár

Leikurinn fer fram á heimavelli Cardiff og nefnist Cardiff City Stadium. Hann tekur um 33.280 í sæti og þar spila bæði karla- og kvennalandslið Wales heimaleiki sína.

Starfsfólk RÚV er mætt á svæðið þar sem verið er að máta íslenska fánann á vellinum. Allt að verða til reiðu.

Cardiff City Stadium
Cardiff City StadiumRÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Íslenski fáninn á Cardiff City Stadium
Íslenski fáninn á Cardiff City StadiumRÚV / Edda Sif Pálsdóttir

1. desember 2023 kl. 16:56

Mikið undir hjá Þýskalandi og Danmörku

Hin liðin í riðlinum okkar mætast einnig í kvöld. Þýskaland fær Danmörku í heimsókn og óhætt að segja að það sé einnig mikið undir hjá þeim.

Liðin fjögur sem vinna sína riðla í A-deild Þjóðadeildarinnar spila í úrslitakeppni og þar tryggja tvö lið sig inn á Ólympíuleikana í París á næsta ári.

Danmörk vann fyrri leik liðanna 2-0, þar sem Amalie Vangsgaard skoraði bæði mörkin, svo Þýskaland þarf helst að vinna með tveimur mörkum eða meira til að eiga möguleika á efsta sætinu.

Fótboltakonan Amalie Vangsgaard fagnar marki sínu gegn Wales í Þjóðadeildinni í október 2023 ásamt liðsfélaga sínum, Mille Gejl.
Amalie Vangsgaard fagnar marki með danska landsliðinuEPA / Bo Amstrup

1. desember 2023 kl. 16:20 – uppfært

Svona er teymið í kringum leikinn

Helga Margrét Höskuldsdóttir stýrir Stofunni fyrir og eftir leik og fær sérfræðingana Öddu Baldursdóttur og Mist Edvardsdóttur til að fara yfir leikinn.

Upphitun fyrir leik Íslands og Wales í Þjóðadeild kvenna.
Adda Baldursdóttir, Mist Edvardsdóttir og Helga Margrét HöskuldsdóttirEdda Sif Pálsdóttir

Hörður Magnússon og Logi Ólafsson koma svo til með að lýsa leiknum og Edda Sif Pálsdóttir er á vellinum og mun taka viðtöl við leikmenn og þjálfara.

Stofan hefst klukkan 18:40 og leikurinn byrjar 19:15, allt í beinni á RÚV.

1. desember 2023 kl. 14:54

Myndir frá lokaæfingu Íslands í Wales í gær

Íþróttadeild RÚV var á staðnum þegar íslenska liðið æfði í síðasta skipti í Wales í gær fyrir leikinn í kvöld.

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

Myndir frá æfingu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta í Wales þann 30.11.2023.
RÚV / Edda Sif Pálsdóttir

1. desember 2023 kl. 13:43

Landsliðsfyrirliðinn ræðir málin

Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir segir ekki óeðlilegt að íslenska liðið hafi þurft smá tíma til að smella enda nýtt að mörgu leyti. Glódís var í viðtali fyrir leikinn í gær í Wales.

1. desember 2023 kl. 13:37

Búið að selja yfir 6000 miða á leikinn

Það er búið að selja yfir 6000 miða á leik Wales og Íslands í kvöld en leikurinn er spilaður á Cardiff City leikvanginum í Wales sem tekur rúmlega 28 þúsund í sæti. Áhorfendur verða einungis í neðri stúkum á leiknum.

Leikur Íslands og Wales hefst kl. 19:15 og verður sýndur beint á RÚV.

Mynd af Cardiff City leikvanginum í Wales af heimsíðu Cardiff City FC. Ísland mætir Wales á vellinum í Þjóðadeildinni.
Heimasíða Cardiff City / Cardiff City

Cardiff City leikvangurinn í Wales.

1. desember 2023 kl. 11:42

Allir möguleikarnir!

Í Þjóðadeildinni gildir innbyrðisúrslitareglan verði lið jöfn að stigum. Það útilokar strax að Ísland komist upp fyrir Þýskaland þó báðir leikir vinnist hjá okkar konum í lokaleikjunum tveimur, gegn Wales í kvöld og Danmörku 5. desember, þar sem Þýskaland vann báða leiki okkar. Það segir okkur einnig hvað má gerast og ekki gerast í leiknum gegn Wales í kvöld:

Sigur eða jafntefli: Íslenskur sigur eða jafntefli tryggir þriðja sætið. Wales getur í besta falli jafnað stigafjölda okkar verði jafntefli, en þá er Ísland alltaf með betri árangur í leikjum liðanna tveggja. Íslenskur sigur klárar dæmið og engu skiptir hvað gerist í lokaleiknum.

Eins marks tap: Eins marks tap flækir málið aðeins. Ísland vann leik liðanna hér á landi 1-0 og verði niðurstaðan í Wales eins marks tap er Ísland þó enn fyrir ofan en þá vegna betri heildarmarkatölu. Gripið er til hennar ef lið eru jöfn innbyrðis. Þá bætist hins vegar lokaleikurinn allt í einu inn í stöðuna vegna þess að heildarmarkatalan getur breyst þar. Ísland mætir Danmörku og Wales Þýskalandi í lokaleikjunum. Ísland er núna með -6 mörk í markatölu og Wales -10.

Tveggja marka tap eða meira: Verði þetta niðurstaðan er Wales komið upp fyrir Ísland. Jafnmörg stig en betri innbyrðisárangur Wales. Þá þarf Ísland að ná fleiri stigum í lokaumferðinni en Wales.

Telma Ívarsdóttir í leik Íslands og Þýskalands í október 2023.
Mummi Lú

1. desember 2023 kl. 11:32

Mikilvægt að taka með sér sjálfstraustið sem fylgdi sigrinum gegn Wales í fyrri leiknum

Hlín Eiríksdóttir segir fyrri leikinn gegn Wales ekki endilega besta leik Íslands í Þjóðadeildinni þó það sé eini sigurinn hingað til. Liðið geti hins vegar sannarlega tekið með sér þrjú stigin úr fyrri leik liðinna inn í leikinn í kvöld enda séu þau mikilvæg upp á sjálfstraustið. Hlín var í viðtali um leikinn framundan hjá okkar fólki í Wales.

1. desember 2023 kl. 11:23 – uppfært

Staðan í riðlinum - Ísland berst um að halda sér í A-deild

Ísland er í A-deild í Þjóðadeildinni og því í sterkum riðli, A3, með Danmörku, Þýskalandi og Wales. Danir tróna á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir fjóra leiki. Þjóðverjar eru í öðru sætinu með 9 stig og Ísland í því þriðja með 3 stig. Stigin þrjú komu einmitt úr eina sigurleik Íslands í keppninni, fyrri leiknum gegn Wales á Laugardalsvelli. Wales er enn án stiga á botninum.

Efsta sæti hvers riðils kemst í úrslit Þjóðadeildarinnar sem verða spiluð næsta sumar en liðin í sætum þrjú og fjögur berjast við fall í B-deildina. Liðið sem endar í fjórða sæti riðilsins fellur beint í B-deild og verður þar í undankeppni EM á næsta ári. Liðið í þriðja sæti fer hins vegar í umspil um fall þar sem andstæðingurinn verður eitt þeirra fjögurra liða sem endaði í öðru sæti riðlanna í B-deildinni.

Með tvo leiki framundan getur Ísland mest endað með níu stig en minnst þrjú. Leikurinn í kvöld er því afar mikilvægur upp á það hvort liðið fellur niður í B-deildina en bæði lið eiga erfiða leiki eftir leik kvöldsins. Ísland mætir Danmörku 5. desember og þá mætir Wales Þýskalandi.

Staðan í riðli Íslands í Þjóðadeild kvenna þann 01.12.2023 fyrir leik Íslands og Wales.
Skjáskot/KSÍ

1. desember 2023 kl. 11:10

Þorsteinn Halldórsson þjálfari íslenska liðsins í viðtali fyrir leik