Skotnýtingin lék Ísland grátt gegn Þýskalandi
Umfjöllun: Frammistaðan gefur ágætis fyrirheit
Ísland tapaði með tveimur mörkum gegn Þjóðverjum í fyrsta leik sínum í milliriðli. Lokatölur urðu 26-24 en mjótt var á mununum allan leikinn. Frammistaðan gegn þýska liðinu í kvöld gefur ágætis fyrirheit fyrir komandi baráttu í milliriðlinum.
Leikið var fyrir framan fulla höll af Þjóðverjum í Lanxess Arena. Þýskaland hefur aldrei áður tapað á stórmóti á vellinum. Sjö leikir - sjö sigrar. En íslenska liðið var með önnur plön í kvöld.
Vel heyrðist í 150 stuðningsmönnum Íslands í höllinni. Vörnin stóð vaktina vel og sóknarleikurinn flæddi betur en í fyrri leikjum. Nýtingin úr hornafærum og vítum lék liðið þó enn grátt. Fjögur víti fóru forgörðum í leiknum. Þá skoraði Ísland þrjú skot úr níu færum úr horninu. Það sama hefur verið uppi á teningnum í síðustu tveimur leikjum.
Munurinn var eitt mark þegar til búningsklefa var gengið, 14-15. Ísland leiddi í tvígang í leiknum en Þjóðverjar reyndust sterkari á lokakaflanum. Janus Daði Smárason leiddi sóknarleik Íslands en hann var með sex mörk og þrjár stoðsendingar.
Aron mætti með fallbyssuna til leiks í upphafi
Snorri gerði breytingar á sóknaruppstillingu Íslands milli leikja. Janus Daði kom inn á miðjunni en Elvar Örn stóð vaktina í vörninni og skipti við hann. Sóknin byrjaði vel. Fyrst skoraði Aron og það veit alltaf á gott þegar hann skorar úr sínu fyrsta skoti að utan. Síðar kom Sigvaldi Íslandi í 2-0 og það heyrðist vel í 150 Íslendingunum í stúkunni. Ómar Ingi greip svo vel inn í og stal boltanum.
Átta af sextán leikmönnum Íslands spila í Þýskalandi og þeim virtist líka lífið í Lanxess höllinni í kvöld ágætlega. Aron hélt áfram að skjóta og var með þrjú af fyrstu fjórum mörkum Íslands. Hann pantaði víti frá dómurum leiksins eftir tíu mínútna leik og fékk það. Ómar var öryggið uppmálað og kom Íslandi í 3-5 forystu.
Þýskaland komst yfir í fyrsta sinn í stöðunni 6-5 eftir 13 mínútur. Martin Hanne kom inn af bekknum og skoraði tvö mörk. Vítin reyndust okkur enn og aftur dýrkeypt en tvö slík höfðu farið í súginn í upphafi leiks. Við skoruðum ekki í sex mínútur á þessum leikkafla. Aron var tekinn út af líkt og í öllum leikjunum hingað til.
Þá datt Viktor Gísli í gang og varði tvö skot. Wolff hafði gert okkur lífið nokkuð leitt í upphafi leiks og var með sjö varin skot um miðjan fyrri hálfleikinn. Arnar Freyr kom inn á línuna og jafnaði metin í 7-7 eftir tuttugu og eins mínútna leik. Þjóðverjar skoruðu á þessum kafla ekki í heilar sjö mínútur en þegar þeir gerðu það komust þeir í 8-7.
Leikurinn hélst áfram jafn en staðan var 10-10 þegar þrjár mínútur voru til leikhlés. Leikar stóðu 11-10 þegar liðin gengu til búningsklefa. Enn var nýtingin úr hornunum arfaslök en einungis eitt skot af fimm fór inn í fyrri hálfleik. Skotnýting Íslands var 50% í hálfleik. Vörnin stóð vaktina hins vegar vel. Þrátt fyrir nýtinguna var munurinn einungis eitt mark og allt gat gerst.
Janus kveikti á sér í seinni hálfleik
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Janus Daði jafnaði metin í 11-11 og Viktor Gísli varði. En þá snerust leikar. Þýskaland komst 13-11 yfir og hornanýtingin lét okkur enn grátt. Elliði minnkaði muninn með afar skrýtnu skoti sem fór þó inn. Það var einhver Róbert Gunnarssonar lykt af því marki.
Óðinn Þór Ríkharðsson brenndi af þremur færum úr horninu, því miður. Óðinn hefur verið einstaklega markheppinn með liði Schaffhausen í Sviss en hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit á mótinu hingað til.
Janus Daði hélt áfram að skila góðu dagsverki í sóknarleiknum. Boltinn flæddi vel í kringum hann og skotin rötuðu á réttan stað þegar þurfti. Aron hóf skothríð í upphafi seinni hálfleiks en því miður geiguðu fyrstu þrjú skot hans. Síðasta mark hans kom á sjöttu mínútu leiksins.
Viktor Gísli hélt áfram að verja vel í markinu. Hann og Wolff voru í kapphlaupi um varin skot og voru báðir með tíu varin skot eftir 42 mínútna leik. Staðan var 16-15 heimamönnum í vil.
Björgvin Páll kom inn á í fyrsta skipti á þessum tímapunkti og varði víti Knorr af vítalínunni. Engin vítasúpa þar á ferð. Mjótt var áfram á mununum næstu mínútur. Þá reis Elvar Örn upp og jafnaði í 17-17. Mörkin sem hann skorar virðast alltaf gífurlega mikilvæg.
Ísland komst yfir í stöðunni 18-19 þegar Janus Daði slapp í gegn og skoraði sitt fimmta mark. Þetta var í fyrsta sinn sem Ísland leiddi frá því í stöðunni 5-4 í upphafi leiks. Þjóðverjum í stúkunni var hætt að lítast á blikuna á þessum tímapunkti. Þýskaland jafnaði metin í stöðunni 20-20 og Ýmir fékk tveggja mínútna brottvísun.
Þýskaland endurheimti forskotið í stöðunni 21-20 þegar níu mínútur voru eftir. Fráköstin léku okkur grátt líkt og áður á mótinu. Björgvin Páll varði þá sitt annað víti á gífurlega mikilvægum tímapunkti.
Þjóðverjar komust í 23-21 þegar fjórar mínútur voru eftir. Þá steig Wolff aftur upp og varði víti. Ómar Ingi hafði átt erfitt uppdráttar í sóknarleiknum en skoraði í næstu sókn. Staðan var því 24-23 þegar tvær mínútur eru eftir.
Víti Ómars Inga geigaði því næst á ögurstundu, þegar skammt lifði leiks. Var það í fjórða sinn í leiknum sem Ísland klúðraði vítakasti. Þjóðverjar komu sér í tveggja marka forskot þegar mínúta var eftir. Sigvaldi minnkaði muninn í 25-24 en Þjóðverjar skoruðu lokamarkið eftir gífurlanga sókn. Þúsundir Þjóðverja í Lanxess fögnuðu vel að leikslokum. Stemningin verður gífurleg hér næstu daga.
Jákvæð teikn á lofti
Það eru jákvæð teikn á lofti fyrir þrjá leikina sem eftir eru í milliriðlinum. Vörnin stóð vaktina vel í dag með Ými í fararbroddi og markvarslan var frábær lengst af. Viktor Gísli var með þrettán varin skot og markvörslu upp á 34.2%. Björgvin Páll varði tvö víti. Þegar vörnin og markvarslan er svo góð er dýrkeypt að horfa upp á þau gullnu tækifæri sem voru til staðar. Litlu mátti muna að sigurinn væri okkar.
Enn eigum við hornanýtingu algjörlega inni en við skoruðum þrjú mörk úr níu skotum úr horninu. Venjulega eru hornamennirnir okkar fjórir með 75% nýtingu en þeir hafa verið langt frá því á þessu móti. Ef þeir koma sér í gang eru okkur allir vegir færir gegn Frakklandi, Króatíu og Austurríki.
Alfreð Gíslason og félagar gátu fagnað í lok leiks.
Janus Daði var markahæstur með sex mörk auk þess að vera með þrjár stoðsendingar. Sigvaldi Björn steig upp undir lokin og lauk leik með fjórum mörkum. Aron byrjaði leikinn vel en hvarf sóknarlega í seinni hálfleik.
Ýmir Örn stóð vaktina afar vel í vörninni og var með tólf löglegar stöðvanir. Ómar og Aron voru sömuleiðis sterkir í vörninni.
Þýskaland hefur aldrei tapað leik á stórmóti í Lanxess höllinni áður. Í kvöld varð engin breyting á. Milliriðlarnir eru hafnir og út í alvöru er komið. Það sást á leik Íslands í kvöld að strákarnir eru klárir í hana. En þrátt fyrir ágætis frammistöðu er liðið þó með núll stig. Frakkland bíður okkar á laugardaginn kemur.
-JPÁ
Viðtal við Aron Pálmarsson eftir leik má sjá hér að neðan. Aron sagðist vel til í að spila ömurlega ef sigur næst í hús.
Tveggja marka tap staðreynd
Þýskaland vinnur, 26-24.
Ísland var ekki langt frá því að stela boltanum í síðustu sókn Þjóðverja sem hefði gefið okkur tækifæri á að jafna. Þess í stað skorar Þýskaland síðasta mark leiksins og vinnur með tveimur mörkum.
Nánari umfjöllun og viðtöl á leiðinni.
Þýskaland leiðir með einu
Skammt er eftir af leiknum en staðan er 25-24 þegar innan við mínúta er eftir.
Ýmir!
Þegar fjórar mínútur eru eftir af leiknum er munurinn einungis eitt mark, 23-22. Ýmir skoraði rétt í þessu sitt fyrsta mark línunni.
Sex mínútur eftir
Þýskaland leiðir 22-21 þegar sex mínútur eru eftir af leiknum.
Jafnt þegar fimmtán mínútur eru eftir
Staðan er nú 17-17 eftir 46 mínútna leik. Janus Daði og Elvar Örn hafa skorað síðustu tvö mörk okkar. Ómar Ingi stelur svo boltanum. Ísland getur komist yfir í fyrsta skipti frá því í stöðunni 5-4 í upphafi leiks.
Munurinn stendur í einu marki
Þýskaland leiðir 16-15 eftir 41 mínútna leik. Sigvaldi skoraðu úr hraðaupphlaupi en liðin skiptast nú á mörkum. Janus Daði er kominn með þrjú mörk.
Þýskaland leiðir með tveimur
Þýskaland er 14-12 yfir eftir 33 mínútna leik. Enn er hornanýting Íslands afar slæm, en liðið hefur skorað úr einu af sex skotum sínum úr horninu.
Seinni hálfleikur er farinn af stað
Ísland byrjaði seinni hálfleikinn með boltann og Janus Daði jafnaði leikinn úr fyrstu sókninni. Viktor Gísli ver svo hinum megin!
Þjóðverjar einu marki yfir hálfleik
Staðan er 11-10 þegar liðin ganga til búningsklefa. Enn er nýtingin úr hornunum arfaslök en einungis eitt skot af fimm hefur farið inn. Skotnýting Ísland er 50%. Vörnin hefur staðið vaktina vel. Þrátt fyrir höktandi sóknarleik var munurinn einungis eitt mark og allt gat gerst.
Mjótt á mununum
Þjóðverjar leiða með einu marki, 11-10, þegar tvær mínútur eru í hálfleik.
Ísland byrjar með boltann í seinni hálfleik.
Eins marks munur
Arnar Freyr kom inn á línuna og jafnaði metin í 7-7 eftir tuttugu og eins mínútna leik. Þjóðverjar höfðu ekki skorað í sjö mínútur en komust yfir í 8-7. 22 mínútur eru liðnar.
Viktor ver
Viktor Gísli er nú búinn að verja tvö skot á skömmum tíma. Wolff hefur byrjað leikinn vel í ramma Þjóðverja og er með sex varin skot gegn fjórum hjá Viktori.
Þjóðverjar komnir með forskotið
Þýskaland komst yfir í 6-5 eftir 13 mínútur. Nú er forskotið tvö mörk en Ísland hefur ekki skorað í sex mínútur. Þessi slæmi kafli má enda sem allra fyrst. 16 mínútur eru liðnar. Viktor Gísli varði og Bjarki Már skoraði úr hraðaupphlaupi. Staðan er 7-6 fyrir heimamönnum.
Aron í stuði
Aron Pálmarsson er búinn að skora úr fyrstu þremur skotum sínum. Ísland leiðir 2-4 eftir átta mínútna leik.
Ísland leiðir eftir fimm mínútna leik
Staðan er 3-2 en Viggó Kristjánsson brenndi af víti rétt í þessu.
Ómar Ingi greip áður vel inn í og stal boltanum. Átta af sextán leikmönnum Íslands spila á Þýskalandi og þeim virtist líka lífið í Lanxess höllinni ágætlega í byrjun leiks.
Ísland leiðir 2-1
Ísland leiðir 2-1 en Aron og Sigvaldi skoruðu mörkin. Þjóðverjar náðu rétt í þessu að minnka muninn um eitt mark. Þrjár mínútur eru liðnar.
Leikar að hefjast
Liðin eru klár og þjóðsöngvarnir eru að baki. Nær Ísland í sín fyrstu stig í milliriðlinum á EM?
Það kemur í ljós næstu 60 mínútur. 150 Íslendingar eru gegn mörgum þúsundum Þjóðverja. En það eru sextán leikmenn í íslenska hópnum líkt og í þeim þýska.
Við treystum á þessa 166 Íslendinga í kvöld. Leikurinn er hafinn. Áfram Ísland!
„Alfreð er skíthræddur“
Það styttist í leikinn og spennan er gífurleg í höllinni. Logi Geirsson segir að Alfreð Gíslason sé skíthræddur fyrir leikinn. Logi les þar í tyggjóát Alfreð. „Alfreð er skíthræddur. Ég sé það á því hvernig hann er með tyggjóið.“
Alfreð ræddi við RÚV í gær og fór yfir gengi Íslands og Þýskalands á mótinu hingað til. Hann segir að Þýskaland sé með minni breidd en Ísland og að hann hyggist syngja með báðum þjóðsöngvum. Viðtalið má sjá í klippunni hér að neðan.
Helmingur liðsins spilar í Þýskalandi
Strákarnir okkar ættu að vita nokkuð vel hvað er að fara að eiga sér stað í kvöld.
Átta af sextán leikmönnum liðsins spila í Þýskalandi og þá léku Aron og Bjarki Már lengi vel þar í landi. Þá er úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu haldin í Lanxess Arena. Ómar Ingi, Janus og Gísli Þorgeir urðu Evrópumeistarar í höllinni í vor.
Fimmtán úr sextán manna hóp Þjóðverja leika í þýsku Bundesligunni. Markvörðurinn Andreas Wolff er sá eini sem leikur í öðru landi en hann er liðsfélagi Hauks Þrastarsonar í pólska stórliðinu Kielce.
Við skulum vona að þessi reynsla strákanna okkar komi þeim að góðum notum í kvöld.
Stofan er farin af stað
Kristjana Arnarsdóttir, Kári Kristján Kristjánsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson hita upp fyrir leikinn á RÚV.
Ágætis sigurhlutfall gegn íslenskum þjálfurum
Alfreð Gíslason stýrir Þýskalandi gegn Íslandi á EM í handbolta í kvöld. Alfreð verður sjöundi íslenski þjálfarinn sem þjálfar erlent landslið gegn Íslandi á stórmóti. Ísland hefur þó oftar unnið lið íslensku þjálfaranna en tapað.
Þetta gefur ágætis fyrirheit fyrir kvöldið. Lesa má meira um málið í færslunni hér að neðan.
„Ég er svosem ekkert að leyfa neinum að hvíla“
Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari var í viðtali fyrir leikinn í kvöld.
„Upplegið er að reyna að bæta okkur á flestum sviðum frá síðasta leik. Við þurfum klárlega að gera það. Við þurfum að standa almennilega vörn. Við þurfum að vera fastir fyrir og ekki láta vaða yfir okkur og svo kannski fyrst og fremst að fækka þessum tæknifeilum og skora úr færunum okkar.“
Einar og Donni hvíla
Einar Þorsteinn Ólafsson og Kristján Örn Kristjánsson eru út úr hópnum gegn Þýskalandi í kvöld. Óðinn Þór Ríkharðsson kemur inn í stað Kristjáns, sem iðulega er kallaður Donni. Donni kom inn í hópinn fyrir leikinn gegn Ungverjalandi en spilaði ekki neitt.
Haukur Þrastarson kom inn í stað Einars Þorsteins fyrir síðasta leik og heldur sæti sínu í kvöld.
Hópurinn:
Markmenn:
Björgvin Páll Gústavsson, Valur (263/21)
Viktor Gísli Hallgrímsson, HBC Nantes (54/1)
Aðrir leikmenn:
Arnar Freyr Arnarsson, MT Melsungen (90/96)
Aron Pálmarsson, FH (173/657)
Bjarki Már Elísson, Telekom Veszprém (110/384)
Elliði Snær Viðarsson, VfL Gummersbach (42/86)
Elvar Örn Jónsson, MT Melsungen (71/165)
Gísli Þorgeir Kristjánsson, SC Magdeburg (56/124)
Haukur Þrastarson, Barlinek Industria Kielce (27/32)
Janus Daði Smárason, SC Magdeburg (77/121)
Óðinn Þór Ríkharðsson, Kadetten Chaffhausen (34/92)
Ómar Ingi Magnússon, SC Magdeburg (79/275)
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kolstad Håndball (68/195)
Stiven Tobar Valencia, Benfica (11/11)
Viggó Kristjánsson, SC DHfK Leipzig Handball (49/133)
Ýmir Örn Gíslason, Rhein-Neckar Löwen (83/35)
Ungverjar gerðu Íslendingum engan greiða
Austurríkismenn unnu Ungverjaland í fyrsta leik milliriðils I, 29-30. Lið Austurríkis verður að öllum líkindum í harðri baráttu við Ísland um sæti í undankeppni Ólympíuleikana í París 2024. Austurríki er nú með þrjú stig í milliriðlinum eftir fyrsta leikinn, en liðið tók eitt stig með sér úr riðli sínum.
Burt séð frá baráttunni um sæti í undanúrslitum EM voru þetta því ekki óskaúrslit. Ungverjar eru nú þegar komnir með sæti í undankeppni ÓL.
130 Þjóðverjar á hvern Íslending í kvöld
150 Íslendingar verða landsliðinu til stuðnings gegn Þýskalandi í kvöld. Fyrsti leikur liðanna tveggja í milliriðli er klukkan 19:30. Leikið verður fyrir framan fullri Lanxess höllinni í kvöld og búist er við húsfylli. Höllin í Köln tekur 19.500 manns og eru því tæplega 130 Þjóðverjar á hvern íslenskan stuðningsmann í kvöld.
Í München voru mest yfir 5.000 manns að fylgja liðinu en talan er nú dottin niður í 150 samkvæmt heimildum HSÍ. Talið er að talan fari hækkandi þegar líða tekur á milliriðilinn en leikdagar gegn Frakklandi og Króatíu eru næstkomandi mánudagur og laugardagur.
Stuðningsmenn Íslands eru nú að hita upp á Früh am Dom staðnum en haldið verður í höllina innan skamms.
Jarlinn hefur spáð
Líkt og í leikjum Íslands í riðlinum spáir refurinn Jarl í spilin. Hann er hvergi bangin þrátt fyrir að hafa ekki náð að spá fyrir um rétt úrslit í leiknum gegn Ungverjum. Fram að því hafði hann haft rétt fyrir sér í fyrstu tveimur leikjunum.
Jarlinn spáir okkur sigri í kvöld fyrir framan fullri höll af Þjóðverjum í Lanxess höllinni í Köln.
Sjá má spá hans hér að neðan.
Alfreð sjöundi Íslendingurinn sem þjálfar á móti Íslandi
Alfreð Gíslason verður í kvöld sjötti Íslendingurinn sem stýrir landsliði á móti íslenska karlalandsliðinu í handbolta á stórmóti. Hér fyrir neðan gefur að líta yfirlit yfir þessa sex sem hafa mætt Íslandi með erlend landslið á stórmóti karla í handbolta.
-Alfreð Gíslason sem þjálfari Þýskalands á EM 2024
-Erlingur Richardsson sem þjálfari Hollands á EM 2022
-Aron Kristjánsson sem þjálfari Barein á HM 2019
-Kristján Andrésson sem þjálfari Svíþjóðar á EM 2018 og EM 2020
-Guðmundur Guðmundsson sem þjálfari Danmerkur á HM 2015
-Patrekur Jóhannesson sem þjálfari Austurríkis á EM 2014
-Dagur Sigurðsson sem þjálfari Austurríkis á EM 2010 og Japans á HM 2019
Mættu Þjóðverjum líka í Köln síðast
Ísland mætti Þýskalandi síðast á stórmóti á HM 2019. Það var fyrsti leikur í milliriðli eins og nú og leikið í sömu höll og í kvöld, hinni glæsilegu Lanxess Arena í Köln. Í leiknum fyrir fimm árum síðan unnu Þjóðverjar, 24-19. Aron Pálmarsson og Arnór Þór Gunnarsson meiddust í leiknum og hann dró því dilk á eftir sér.
Ísland tapaði fyrir Frökkum og Brasilíu í síðustu tveimur leikjum sínum í milliriðlinum á HM 2019. Vonandi fer betur í kvöld.
Logi leggst á bæn
Logi Geirsson handboltaspekúlant RÚV á leikstað spáir í spilin fyrir leik kvöldsins við Þýskalands. Logi leggst á bæn að Ísland vinni Þjóðverja í Köln í kvöld.
Gummi Gumm tjáði sig um íslenska landsliðið
Guðmundur Guðmundsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands í handbolta, var gestur í EM-stofu Dana í gær á TV2. Þar var hann meðal annars spurður hvernig væri að þjálfa íslenska landsliðið.
„Það var leiðinleg ræða frá mér“
„Hann var ekkert auðmeltur, bara alls ekki. Bara leiðinlegt að horfa á þetta og leiðinlegt að greina þetta, voru bara lélegir og margt sem vantaði upp á,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari um tapleikinn gegn Ungverjalandi.
Mikið í húfi
Ísland á að sjálfsögðu ennþá möguleika á að komast í undanúrslit og þar að auki er liðið í barráttu um að komast í forkeppni fyrir Ólympíuleikana.
Til þess þarf íslenska liðið að enda ofar en tvö af eftirfarandi liðum: Holland, Austurríki og Portúgal.
Liðin eru svipuð að styrkleika
Einar Örn Jónsson lýsir leikjum Íslands á mótinu og hann þekkir þýska handboltann vel. Hann bar saman lið þjóðanna, stöðu fyrir stöðu, og komst að því að liðin eru álíka vel mönnuð.
Fyrsti leikur í milliriðli
Milliriðill Íslands hefst í dag og eigum við leik gegn Þýskalandi klukkan 19:30. Tveir aðrir leikir eru á dagskrá í dag í riðlinum:
14:30 Ungverjaland - Austurríki (RÚV)
17:00 Frakkland - Króatía (RÚV2)
Við hefjum upphitun fyrir leik Íslands á RÚV klukkan 19:00. Leiknum verður svo einnig lýst beint á Rás 2.
Staðan í riðlinum: