Einn leikur var í úrvalsdeild kvenna í fótbolta í Þýskalandi í kvöld. Landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var á sínum stað í byrjunarliði Leverkusen sem tók á móti Köln í grannaslag. Á 23. mínútu tók Karólína Lea hornspyrnu frá vinstri og sendi boltann á kollinn á Lillu Turanyi sem skoraði. Staðan var 1-0 í leikhléi.
RÚV / Mummi Lú
Þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum bætti Leverkusen við marki. Kristin Kögel skoraði þá og lokatölurnar urðu 2-0 fyrir Leverkusen sem fór upp í fimmta sæti og er þó enn fimm stigum frá 4. sætinu. Köln er í 9. sæti og enn í fallhættu.