Jóhann Berg Guðmundsson er í 23 manna leikmannahópi Íslands á vef UEFA fyrir leikinn gegn Úkraínu í kvöld. Hópurinn var uppfærður í morgun. Undir í leiknum er sæti á Evrópumótið í Þýskalandi í sumar. Jóhann var ekki hópnum í leiknum gegn Ísrael vegna meiðsla. Hann kemur inn fyrir Arnór Sigurðsson sem meiddist í fyrri leiknum.
Stefán Teitur Þórðarson, sem kallaður var inn í hópinn eftir Ísraelsleikinn, er 24. maður og því utan hóps. Líklegt verður að teljast að bæði Jóhann Berg og Arnór Ingvi, sem var tæpur eftir síðasta leik, séu því klárir í slaginn.
Leikurinn gegn Úkraínu hefst klukkan 19:45 á heimavelli Slask Wroclaw í Póllandi. Stöð 2 sport sýnir leikinn í opinni dagskrá.
RÚV / Mummi Lú
Jóhann Berg verður með fyrirliðabandið ef hann byrjar leikinn í kvöld