Stjarnan knúði fram oddaleik gegn Aftureldingu
Stjarnan vann Aftureldingu í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Olísdeildar karla í handbolta í dag, 27-25. Afturelding vann fyrsta leikinn og því þarf oddaleik til að útkljá hvort liðið fer í undanúrslitin.
Stjörnumenn voru ívið sterkari í fyrri hálfleiknum og leiddu að honum loknum með sex mörkum, 16-10. Hægt og bítandi minnkuðu leikmenn Aftureldingar muninn í seinni hálfleik og þegar um fjórar mínútur lifðu leiks jöfnuðu þeir í 24-24. Stjarnan átti þó örlítið meira á tanknum á lokakaflanum og unnu tveggja marka sigur, 27-25.
Adam Thorstensen átti fínann leik í marki Stjörnunnar, varði 15 skot og var með 37,5% markvörslu. Þórður Tandri Ágústsson var hlutskarpastur í sóknarleik liðsins og skoraði 6 mörk. Í liði Aftureldingar skoraði Birgir Steinn Jónsson 9 mörk.
Oddaleikurinn fer fram á þriðjudaginn í Mosfellsbæ.