15. apríl 2024 kl. 17:50
Íþróttir
Fótbolti

Jóhannes Karl framlengir sem landsliðsþjálfari

Jóhannes Karl Guðjónsson hefur framlengt samning sinn sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í fótbolta. KSÍ tilkynnti þetta í dag en nýr samningur Jóhannes gildir út nóvember 2025. Samningurinn framlengist ef Ísland kemst annað hvort í umspil um sæti á HM 2026 eða á mótið sjálft. Mótið verður haldið 11. júní til 19. júlí í Kanada, Mexíó og Bandaríkjunum.

Jóhannes Karl Guðjónsson í leik Íslands gegn Bosníu í undankeppni EM í september 2023 á Laugardalsvelli.
RÚV / Mummi Lú

Fram undan er undankeppni heimsmeistaramótsins og Þjóðadeildin þar sem Ísland er í B deild. Næstu leikir liðsins eru vináttuleikir gegn Englendingum og Hollendingum í júní. Jóhannes hefur verið aðstoðarþjálfari frá janúar 2022 og hefur stýrt HK og ÍA heima fyrir. Fyrst um sinn var Jóhannes aðstoðarmaður Arnars Þórs Viðarssonar. Hann hefur verið aðstoðarmaður Norðmannsins Åge Hareide frá apríl 2023.

Samningslengd hans er nú sú sama og aðalþjálfarans Hareide. Jóhannes Karl lék 34 landsleiki og skoraði eitt mark fyrir Ísland á árunum 2001-2007.