9. júlí 2024 kl. 11:00
Íþróttir
Fótbolti

Leggur til breytingar á EM – Burt með framlengingu

Spænski landsliðsþjálfarinn Luis de la Fuente segir að breyta þurfi fyrirkomulaginu á stórmótum og mögulega þurfi að taka burt framlenginguna. Þrír af fjórum leikjum í átta liða úrslitum á EM í fótbolta í ár fóru í framlengingu. Luis de la Fuente telur að í framtíðinni eigi að fara beint í vítaspyrnukeppni.

Málið kemur fyrir undanúrslitaleik Spánverja við Frakka í München, bæði lið þurftu að spila auka 30 mínútur til viðbótar við hinar 90 til að komast þangað.

Tillaga hans nær til fyrstu útsláttarlotanna. Spánverjinn telur enn að framlenging ætti að vera í undanúrslitum og úrslitum. Hann segir að þetta muni bæta gæði síðustu leikja mótsins og menn komi ferskari inn í þá leiki.

Tveir leikir í 16-liða úrslitum EM fóru einnig í framlengingu. Pælingar De la Fuente beinast í átt að því sem verið er að gera á hinu stórmótinu sem er í gangi, Copa América. Í Suður-Ameríkukeppninni fara allir umspilsleikir aðrir en úrslitaleikurinn í vítaspyrnukeppni ef jafntefli verður eftir venjulegan leiktíma.

Spánverjar mæta Frökkum í fyrri undanúrslitaleik EM í kvöld klukkan 19:00.

Dani Carvajal of Spain (front) celebrates scoring the 3-0 with Lamine Yamal of Spain during the UEFA EURO 2024 group B match between Spain and Croatia in Berlin, Germany, 15 June 2024.
EPA-EFE/CLEMENS BILAN