Jöfnunarmark á sextándu mínútu uppbótatímans í fyrsta leik mótsins
Keppni á Ólympíuleikunum í París hófst í dag þegar flautað var til leiks í knattspyrnu karla. Marokkó og Argentína skildu jöfn á sama tíma og Spánn vann nauman sigur á Úsbekistan í fyrstu leikjum dagsins.
Spennan var mikil í leik í leik Marokkó og Argentínu. Soufiane Rahimi kom þeim fyrrnefndu í góða stöðu með tveimur mörkum. Varamaðurinn Giuliano Simeone minnkaði muninn fyrir Argentínumenn þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Það var svo komið fram á sextándu mínútu uppbótatíma þegar Cristian Medina náði að jafna fyrir Argentínu.
Uppfært! Jöfnunarmarkið var dæmt af tveimur tímum síðar
Spánn vann 2-1 sigur á Úsbekistan og Úsbekar náðu að jafna metin úr vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks eftir að Spánverjar höfðu komist yfir. Sigurmark Spánverja kom svo á 62. mínútu þegar Sergio Gómez skoraði laglegt mark og Spánverjar voru komnir með sín fyrstu stig á leikunum.