2. ágúst 2024 kl. 15:07
Íþróttir
Ólympíuleikar 2024

Lærisveinar Dags í miklu brasi gegn Svíum

Dagur Sigurðsson og króatíska karlalandsliðið í handbolta lutu í lægra haldi fyrir Svíum á Ólympíuleikunum í dag. Sænska liðið vann öruggan 38-27 sigur en spennan í riðlinum er þó áfram mikil.

Króatar byrjuðu leikinn ágætlega en Svíar voru með þriggja marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, 18-15. Sænska liðið réði svo lögum og lofum á vellinum í seinni hálfleik og vann leikinn afar sannfærandi með ellefu mörkum, 38-27.

Dagur Sigurðsson, landsliðsþjálfari Króata, á hliðarlínunni á Ólympíuleikunum í París 2024.
Dagur á hliðarlínunni með króatíska liðinu.EPA

Undanriðillinn er enn allur í hnút en fimm lið af sex eru sem stendur með fjögur stig og Japanar svo á botninum án stiga. Leikur Þýskalands og Spánar stendur nú yfir og síðar í dag mætast Japan og Slóvenía en fjögur efstu liðin komast áfram í 8-liða úrslit.

Síðustu leikirnir í riðlinum eru spilaðir á sunnudag, þá mæta Króatar Spánverjum.