8. ágúst 2024 kl. 15:36
Íþróttir
Aðrar íþróttir

Týndur keppandi og möguleg drukknun varpar skugga á upphaf Heimsleikanna í CrossFit

Heimsleikarnir í CrossFit hófust í Fort Worth í Texas í dag. Fyrsta æfing leikanna var rúmlega fimm kílómetra hlaup og 800 metra sund í Marine Creek vatni í Fort Worth. Þegar keppendur fóru að tínast í mark kom í ljós að hinn serbneski Lazar Dukic hafði ekki skilað sér uppúr.

Engin yfirlýsing hefur komið frá stjórnendum Heimsleikanna um málið en fréttamiðlar á staðnum greina frá því að viðbragðsaðilar hafi verið að störfum við vatnið vegna mögulegrar drukknunar. CBS segir frá því að einstaklingur hafi drukknað í Marine Creek lóninu.

Streymi frá þessari fyrstu æfingu leikanna hefur verið fjarlægt af YouTube en tímar annarra keppenda hafa verið settir inn á heimasíðu leikanna. Dukic og hinn finnski Henrik Haapalainen eru þeir einu sem ekki eru með skráðan tíma. Sjónarvottar segja Dukic hafa verið um 100 metra frá marklínunni þegar hann virtist fara að eiga erfitt með sundtök.

Íslendingurinn Björgvin Karl Guðmundsson er meðal keppenda á leikunum en hann kom áttundi í mark.