Fyrirliði Víkings: „Stór leikur fyrir okkur og félagið“
Í húfi er yfir hálfur milljarður króna í verðlaunafé fyrir það lið sem kemst áfram. Nikolaj Hansen fyrirliði Víkings segir að leikmenn finni fyrir væntingum og séu spenntir.
„Þetta er mjög stór leikur bæði fyrir félagið og leikmennina, að geta sýnt okkur í deildinni. Það eru sex leikir í viðbót ef við förum áfram,“ segir Nikolaj.
Víkingur hefur enn ekki unnið heimaleik í Evrópukeppni í sumar og segir Nikolaj að tími sé til kominn. „Við ætlum að sýna okkar fólki að við getum líka unnið á heimavelli. Það er bara þessi síðasta sending og þessi slútt sem hafa ekki verið alveg hundrað prósent kannski.“
Nikolaj hefur verið að glíma við meiðsli sem hann kveðst nú hafa jafnað sig af. Leikurinn á morgun hefst klukkan 18 á Víkingsvelli og seinni leikurinn verður ytra eftir viku.