Íslandsmótinu í fótbolta lauk í gærkvöldi þegar Breiðablik tryggði sér titilinn karlamegin. KSÍ tilkynnti eftir leik hvaða leikmenn þóttu skara fram úr meðal jafningja sinna.
Frá árinu 1984 hafa leikmenn valið þann besta og þann efnilegasta úr sínum röðum. Í ár þótti Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, vera besti leikmaðurinn í Bestu deild karla. Hann lék 27 leiki fyrir Blika í deildinni og skoraði 9 mörk.
Efnilegastur var valinn Benoný Breki Andrésson úr KR. Hann skoraði 21 mark í 26 leikjum með KR í sumar og setti glæsilegt markamet í efstu deild.