Langþráður bikar Framara á leið í Úlfarsárdal
Sjáðu þegar Framarar lyftu titlinum
Framarar gátu fagnað vel að leikslokum. Við segjum þessari fréttavakt lokinni og þökkum fyrir okkur. Við minnum á magnaðan mars en í mars eru átta bikarúrslit í handbolta, körfubolta, fimleikum og blaki. Þangað til næst!
Fram bikarmeistarar í fyrsta skipti síðan 2000
Fram er bikarmeistari karla í handbolta. Fram vann öruggan sigur á Stjörnunni í úrslitaleiknum á Ásvöllum. Liðin eru tuttugu og fimm ár frá því að Fram lyfti bikarnum en það var árið 2000 eftir sigur á Stjörnunni. Fram hafði yfirhöndina bróðurpart leiksins en Stjarnan var síðast yfir í stöðunni 8-7. Þaðan var Stjarnan veitti Fram góða eftirför en tókst þó ekki að ná fullum tökum á leiknum.
Þegar þrjár mínútur lifðu leiks leiddi Fram með fjórum mörkum. Þá skoraði Marel Baldvinsson fallegt mark sem tryggði þeim fimm marka forystu, því fylgdi mark frá Eiði Rafni Valssyni sem innsiglaði sex marka sigur Framara 25-31.
Ívar Logi Styrmisson var markahæstur Framara en hann fékk að líta rauða spjaldið þegar tíu mínútur lifðu leiks. Hann skaut í höfuð markmanns Stjörnunnar úr víti.
Vann titilinn sem hann horfði á fyrirrennarana tapa
„Þegar ég var ungur horfði ég bara á okkur tapa úrslitaleikjum, þannig það er geggjað að taka þetta núna.“ Reyni bauðst að fara út í atvinnumennsku fyrr á tímabilinu en ákvað að vera áfram með Fram „ég sé ekki eftir því núna,“ segir Reynir Þór Stefánsson sáttur en hann var valinn maður leiksins.
Einar Jónsson klökkur eftir sigurinn
„Við héldum plani allan leikinn þrátt fyrir eitt og eitt bull inn á milli.“ Einar þjálfari segir liðið oft hafa spilað betur en frammistaða dagsins hafi þó verið góð. „Við vorum æstir, ég var líka svolítið æstur og tuðaði svolítið mikið. Ég var óánægður með svona skítafeila sem við erum ekki beint vanir að gera.“
Sigurinn er þýðingarmikill fyrir Einar sem varð klökkur. „Þetta er bara geggjað.“
Voru kallaðir hvolpasveitin
„Ég er tárvotur og klökkur. Við erum búnir að eiga ótrúlegt ár við Framarar. Á sama tíma fyrir ári síðan þá gátum við ekki rassgat. Við vorum kallaðir Hvolpasveitin og eitthvað svona kjaftæði. Það sem þetta lið er búið að leggja á sig til að komast hingað. Við erum búnir að vera í 2. sæti í deildinni. Mögulega á toppnum. Þetta er geðveikt. Ég er svo stoltur af þessu liði. Það er svo gaman. Þetta er geggjað.“ - Rúnar Kárason
Þorsteinn Gauti mætti einnig í Stofuna.
Fjögurra marka forysta
Þrjár mínútur eftir og Fram leiðir með fjórum mörkum!
Spennan magnast!
Sjö mínútur eftir og eins marks munur! Fram leiðir 24-25.
Fram siglir framar
Ívar Logi Styrmirsson skellti í sitt áttunda mark í dag og kemur Fram í fimm marka forystu.
Allt í járnum
Fimmtán mínútur eftir og tveggja marka munur, Fram leiðir. Stjarnan sækir þó fast að.
Eins marks munur
Fram leiðir 17-18 þegar 38 mínútur eru liðnar.
Fram byrjar seinni hálfleik kröftuglega
Framarar taka tvö mörk í röð og komnir með fjögurra marka forystu á nýjan leik.
Tveggja marka munur í hálfleik
Stjarnan minnkaði muninn í tvö mörk þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá róuðu Framarar leikinn og komust aftur í þriggja marka forystu. Stjarnan átti síðustu sókn fyrri hálfleiks og náðu forskotinu niður í tvö mörk á ný.
Staðan 12-14 þegar flautað var til hálfleiks.
Stutt eftir af fyrri
Fram er 11-13 yfir þegar tvær mínútur eru eftir af fyrri hálfleik. Hinn tannlausi Einar Jónsson tók leikhlé og fór yfir málin með sínum mönnum.
Fram komið fjórum mörkum yfir
Fram eru búnir að taka 5-0 kafla og leiða nú 8-12 þegar 24 mínútur eru liðnar.
Mjótt á mununum!
Það stefnir í gríðarlega spennandi leik. Stjörnumenn leiða 8-7 eftir 17 mínútna leik.
Magnús Öder fær rautt
Magnús Öder Einarsson fær rautt spjald eftir 6 mínútna leik. Hann fór í skothönd Sveins Andra sem hafði brotið sér leið í gegn. Lítið við þessu að gera fyrir Framara en þeir vildu fá skref.
Framarar vörðu vítið!
Staðan er 4-4 eftir tæplega sjö mínútur.
Tvær tveggja mínútna!
Staðan er 3-3 eftir 5 mínútna leik. Stjörnumenn hafa fengið tvær tveggja mínútna brottvísanir.
Fram með fyrsta mark leiksins
Leikurinn er farinn af stað og Framarar skoruðu fyrsta mark leiksins. Stjörnumenn svöruðu í sömu mynt.
Staðan er 1-1 eftir tvær mínútur.
Styttist í leik
Stofan er farin í loftið og leikurinn sjálfur hefst 16:00.
Fram hafa einungis unnið í eitt skipti af ellefu og það var árið 2000 - einmitt gegn Stjörnunni.
Það er ljóst að strákarnir ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að bláklæddir stuðningsmenn Fram fari ekki tómhentir aftur í Úlfarsárdalinn.
Bikarfögnuður Hauka
Hér má sjá bikarfögnuð Hauka að leik loknum.
Viðtöl eftir Haukasigurinn
Viðtöl eftir leik birtast hér að neðan. Rætt var við Elínu Klöru, Rut, Stefán Arnarson. Unnið verður úr viðtölunum innan skamms en þangað til má sjá þau hér.
„Ég er ekkert smá ánægð. Ég er svo þreytt núna en svo ánægð!“
Rut Arnfjörð Jónsdóttir leikmaður Hauka er stolt af sínu liði. Rut er mikill reynslubolti í annars frekar ungu Haukaliði.
„Þessar ungu stelpur leggja svo mikið á sig, það gerir svo mikið fyrir mig að vera með svona liði.“
Liðið stillti upp nýju varnarkerfi í klefanum fyrir leik. „Ég hugsaði alveg að við hefðum geta farið aðeins betur yfir þetta, en við gerðum þetta svo vel. Ég verð að hrósa Sonju þarna fyrir framan og hinum stelpunum.
Það krefst líka mikils að taka við svona skilaboðum bara rétt fyrir leik.“
„Maður gírar sig alltaf inn í svona leik. Ég var svo spennt í dag, það er langt síðan ég var svona spennt.“
Hugmyndin kviknaði yfir óáfengu koníaksglasi í gær
Stefán segir vörn og markvörslu hafa spilað lykilhlutverk í því að sigra Fram. „Við vorum með frábæra vörn og góða markvörslu og keyrðum vel á þær.“
Hugmyndin að nýrri uppstillingu liðsins varnarlega kom yfir einum óáfengum í gærkvöldi. „Ég fékk mér einn óáfengan koníak í gær og þá fór ég að hugsa hvort þetta væri ekki sniðugt. Ég ákvað bara að henda þessu inn og það gekk. Þetta er ekki flóknara en það.“
Stefán hefur unnið þó nokkra titla í gegnum árin. „Maður er í þessu til að ná í titla.“
Elín Klara Þorkelsdóttir segist ánægð að fá loksins nýtt ártal á töfluna
Liðið beitti nýrri varnartækni en við höfum séð undanfarið. „Við eiginlega komum bara með það inni í klefa fyrir leik og ákváðum að prufa þetta. Hún gekk bara mjög vel. Svo fórum við yfir í okkar 6-0 vörn sem gekk líka bara ótrúlega vel.“
Haukar búnir að brjóta ísinn?
Það eru átján ár frá síðasta bikarmeistaratitli Haukakvenna, er liðið nú búið að brjóta ísinn sem þurfti? „Já, loksins, eins og við sögðum í gær, það er hægt að koma með nýtt ártal á töfluna.“
Thelma Melste og Sara Sif Helgadóttir mættu einnig í viðtöl.
Haukar eru bikarmeistarar
Haukar eru verðskuldaðir bikarmeistarar eftir 25-20 sigur gegn Fram. Leikurinn var jafn í stöðunni 5-5 en Haukar leiddu eftir það. Raunar var leikurinn nokkuð sveiflukenndur. Haukar komust í 5-0 í byrjun, Fram jafnaði, en síðan komust Haukar aftur í fimm marka forskot í stöðunni 10-5.
Staðan í hálfleik var 16-11. Framkonur reyndu allt hvað þær gátu til að minnka muninn en Haukar fundu alltaf svör á báðum endum vallarins. Að lokum var sigurinn nokkuð verðskuldaður og Haukar gátu fagnað honum vel á heimavelli sínum á Ásvöllum.
Vörn Hauka var virkilega þétt sem gerði Fram erfitt fyrir.
Sara Sif Helgadóttir markmaður Hauka átti stórleik og varði 12 skot í leiknum með fjörutíu prósenta markvörslu í það heila. Inga Dís Jóhannsdóttir og Elín Klara Þorkelsdóttir voru markahæstar Hauka með fimm mörk hvor.
Fréttavaktin verður áfram gangandi fram yfir bikarúrslitaleik karla sem hefst innan skamms.
Hér koma inn viðtöl og helstu tilþrif úr leiknum.
Haukar leiða með sex
Staðan er 18-24 þegar tvær mínútur eru eftir. Haukar eru að verða bikarmeistarar.
Mjótt á mununum
Haukar leiða með fimm mörkum fyrir lokakaflan. Staðan er 16-21 þegar 53 mínútur eru liðnar.
Rosaleg átök
Það má skera spennuna með hníf á Ásvöllum. Staðan er 13-18, Haukum í vil, eftir 45 mínútur.
Sara Sif heldur áfram að verja vel í marki Hauka. Fram vörnin er að taka á Haukum en þetta er ekki að smella hjá þeim bláklæddu.
Fimm mörk!
Framarar freistuðu þess að leika án markmanns eftir tveggja mínútna brottvísun á Steinunni. Þær misstu boltann og Haukar skoruðu í tómt markið.
Haukar leiða 14-9 eftir 36 mínútna leik.
Þriggja marka munur
Eftir fimm marka mun í hálfleik hafa Framkonur komið ákveðnari til leiks. Þær náðu að minnka muninn í þrjú mörk, 8-11, eftir 33 mínútna leik. Þá fékk Rut Jónsdóttir nóg og skoraði. Alfa Brá Oddsdóttir Hagalín tók þá til sinna ráða og svaraði með marki.
Staðan er 9-12 eftir 35 mínútur. Það stefnir allt í æsispennandi seinni hálfleik.
Haukar leiða í hálfleik
Vægast sagt sveiflukenndur leikur, liðin hafa skiptst á fimm marka köflum. Haukar leiða með fimm mörkum í hálfleik, staðan er 6-11. Ljóst er að Framkonur þurfa að mæta beittar til leiks ef þær ætla sér sigur.
Sara Sif í fantaformi!
Sara Sif Helgadóttir er á góðri leið með að byggja vegg í marki Hauka. Hún er með 61,5 prósenta markvörslu það sem af er leiknum. Haukar taka 5 mörk í röð. Liðin skiptast á fimm marka köflum.
Viðsnúningur hjá Fram! Staðan jöfn.
Mikill kraftur færist í Framliðið! Darija Zecevic er stórgóð í markinu og Fram tók 5-0 kafla! Staðan er jöfn. Tíu mínútur frá síðasta marki Hauka.
Fram leitar lausna
Framarar leita lausna við varnarleik Hauka en gengur erfiðlega, Haukar eru komast í 0-5.
Fyrsta mark fram kom eftir tæpan átta mínútna leik en þar var Lena Margrét Valdimarsdóttir að störfum. Þórey Rósa Stefánsdóttir minnkar muninn í þrjú mörk. Sara Sif Helgadóttir er komin með fjögur varin skot fyrir Hauka.
Sterk byrjun hjá Haukum
Haukar byrja af miklum krafti og skora fyrstu fimm mörk leiksins! Darija Zecevic markmaður Fram ver þá víti frá Haukum og Fram tekur leikhlé.
„Maður sem giftist fjórum sinnum, er hann með meiri reynslu en maður sem giftir sig einu sinni?“
Þetta er í ellefta skiptið sem Stefán Arnarson þjálfari Hauka fer í bikarúrslitaleik og við því segir hann: „Maður sem giftist fjórum sinnum, er hann með meiri reynslu en maður sem giftir sig einu sinni? Það kemur bara í ljós“.
Hefur liðið fundið lausnirnar gegn Fram? „Stundum þegar ég var að þjálfa þig þá fannst mér ég vera með lausnir en svo komu þær ekki,“ segir Stefán við Þorgerði Önnu Atladóttur sérfræðing í Stofunni.
Upphitun byrjuð í beinni á RÚV
Helga Margrét Höskuldsdóttir er með þeim Þorgerði Önnu Atladóttur og Kristínu Guðmundsdóttur að hita upp fyrir leikinn sem hefst klukkan 13:30.
1999, 2018 og 2025
Þetta er í þriðja sinn sem kvennalið Fram og Hauka mætast í úrslitaleik bikarkeppninnar. Fyrst var það 1999 þegar Fram sigraði í markalitlum leik 17-16. Fram sigraði einnig árið 2018 og það mjög örugglega með 14 marka mun. 30-16 voru lokatölurnar þá en hvað gerist í dag?
Leikið á heimavelli Hauka - hefur það einhver áhrif?
„Það er alveg spurning hvort það sé gott eða slæmt. Það er oft gott líka að komast í höllina og fá fílinginn. Að komast í úrslitahelgi bikars sem fylgir því að fara í Laugardalshöll eins og þetta var. Við erum á Ásvöllum, heimavelli Hauka. Á sama tíma eru Framarar með tvö lið í úrslitum þannig að það skapast gríðarlega flott stemning í Úlfarsárdalnum, rútuferðir og eitthvað þvíumlíkt. Þannig ég hugsa að heimavöllurinn verði svolítið lítill í þetta skiptið,“ segir Vignir Stefánsson sérfræðingur RÚV um úrslitaleik Fram og Hauka á Ásvöllum.
„Þetta verður frábær viðureign, liðin sem eru hlið við hlið í töflunni, í öðru og þriðja sæti. Haukastelpurnar eru búnar að vera í Evrópuævintýri sem var að ljúka síðastliðna helgi. Þær eru búnar að vera í örlítið stífara prógrammi á meðan Framstelpurnar unnu frækinn sigur á Val sem hefur ekki gerst í rúmlega 1000 daga ef tölfræðin er rétt á bakvið þetta allt saman. Þær koma með mikið sjálfstraust inn í þetta eins og Haukastúlkur sem unnu góðan sigur á liði Gróttu í undanúrslitum.“ Fram vann Val síðast þann 29. maí 2022.
Verður Fram tvöfaldur meistari?
Fram getur bæst í hóp fárra liða sem tekist hefur að verða tvöfaldir bikarmeistarar í handbolta.
Valur gerði það í fyrra en var auk þess fyrsta liðið sem tókst það, árið 1988, auk þess sem það endurtók leikinn 1993. Stjarnan vann bæði í karla- og kvennaflokki árið 1989 og Haukum tókst það 1997.
Bikarmeistarar krýndir á Ásvöllum
Ekki verður leikið í Laugardalshöll í dag líkt og venja er heldur á Ásvöllum. Það þýðir að kvennalið Hauka er í raun á heimavelli þegar liðið mætir Fram kl. 13:30.
Kvennalið Fram hefur 16 sinnum orðið bikarmeistari, síðast árið 2020, og er sigursælasta lið keppninnar frá upphafi. Nokkuð lengra er síðan Haukar unnu bikarinn en þeirra fjórði og síðasti titill kom árið 2007. Fram vann ríkjandi bikarmeistara Vals í undanúrslitum á fimmtudag áður en Haukar höfðu betur gegn Gróttu.
Líkt og kvennalið Hauka vann karlalið Stjörnunnar sinn síðasta bikarmeistaratitil 2007 og var það einnig þeirra fjórði. Karlalið Fram er á leiðinni í sinn 13. bikarúrslitaleik en liðinu hefur einungis einu sinni tekist að vinna, það var árið 2000.
Leikirnir verða báðir í beinni útsendingu á RÚV og hefst upphitun fyrir fyrri úrslitaleikinn kl. 13:00.