Samantekt

Sjáðu: Eyjamenn fóru illa með Víkinga í Eyjum

Jóhann Páll Ástvaldsson

,
17. apríl 2025 kl. 19:37

Mörkin úr Afturelding-Höttur/Huginn

17. apríl 2025 kl. 18:09 – uppfært

ÍBV með sannfærandi sigur

ÍBV vann verðskuldaðan 3-0 sigur gegn Víkingum í Eyjum. Eftir að hafa verið í áskrift að bikarúrslitaleiknum síðustu ár komust Víkingar ekki yfir fyrstu hindrun í þetta sinn.

Eyjamenn komu dýrvitlausir út í seinni hálfleik og voru það þeir Omar Sowe og Alex Freyr Hilmarsson sem sáu um markaskorunina. Sowe setti tvö og munurinn hefði í raun getað orðið meiri, en Bjarki Björn Gunnarsson brenndi af víti undir lokin.

ÍBV er því komið áfram í átta liða úrslit.

Hér að neðan má sjá mörkin úr leiknum.

Mörkin úr leik Aftureldingar og Hattars/Hugins koma von bráðar.

Við minnum á að bikarinn heldur áfram á morgun. Við sýnum beint frá leikjum Stjörnunnar gegn Njarðvík á morgun, 18. apríl, og svo Fram - FH 19. apríl. Báðir leikirnir eru klukkan 16:00.

Bikarkvöld er svo á dagskrá klukkan 18:00 19. apríl. Þar verður farið vel yfir alla leikina. Helga Margrét Höskuldsdóttir stýrir kvöldinu og Ólafur Kristjánsson og Hörður Magnússon verða sérfræðingar.

Við segjum þessari fréttavakt lokið. Sjáumst aftur í bikargír á morgun og hinn! -JPÁ.

17. apríl 2025 kl. 17:44

ÍBV klúðrar víti

ÍBV fékk víti sem Víðir Þorvarðarson sótti eftir að Ingvar Jónsson braut á honum. Fyrrum Víkingurinn Bjarki Björn Gunnarsson steig á punktinn en víti hans fór fram hjá. Staðan er því enn 3-0 eftir 85 mínútur.

17. apríl 2025 kl. 17:28

Eyjamenn ganga af göflunum

Eyjamenn eru í svakalegum gír hérna! Omar Sowe skorar þriðja mark þeirra á 67. mínútu. Alex Freyr Hilmarsson gaf boltann inn í eftir að boltinn barst til hans eftir hornspyrnu. Fyrirgjöfin var hárnákvæm og beint á kollinn á Omar sem skallaði hann inn.

Þetta er farið að líta ansi, ansi vel út fyrir heimamenn. Kannski ættu þeir bara að spila á Þórsvelli í allt sumar?

17. apríl 2025 kl. 17:14 – uppfært

Eyjamenn tvöfalda forskotið!

ÍBV hafa komið af krafti út í seinni hálfleik og eru nú 2-0 yfir. Alex Freyr Hilmarsson setti annað markið með hnitmiðuðu skoti fyrir utan teig. Heimamenn leiða því með tveimur mörkum eftir 54 mínútur.

17. apríl 2025 kl. 17:07 – uppfært

Omar Sowe!

Vá! Þetta var svo vel gert. Omar Sowe finnur Oliver Heiðarsson á vinstri vængnum. Oliver keyrir á vörnina og finnur Omar í miðjum teignum. Hann tók gæðasnertingu fram hjá Karli Friðleifi og skaut knettinum af öryggi með vinstri í fjærhornið.

Markið kom á 46. mínútú. Nú þurfa Víkingar, sem hafa verið með svarta beltið í bikarnum síðustu ár, að spýta í lófana.

17. apríl 2025 kl. 16:50 – uppfært

Markalaust í hálfleik

Markalaust er í hálfleik. Víkingar voru hættulegri í upphafi og Stígur Diljan fékk hættulegasta færi hálfleiksins. Eyjamenn þjörmuðu nokkuð að marki Víkinga eftir því sem leið á hálfleikinn, en þó án þess að skapa mikla hættu. Oliver Heiðarsson fékk besta færi ÍBV á 33. mínútu.

Það eru spennandi 45 mínútur fram undan þar sem allt getur gerst.

17. apríl 2025 kl. 16:35

Fyrsti leikurinn í 33 ár

Samkvæmt okkar heimildum er þetta fyrsti leikurinn í 33 ár sem að meistaraflokksleikur á hæsta stigi fer fram á Þórsvelli.

Það var leikur ÍBV gegn KA í Samskipadeildinni árið 1992. Martin Eyjólfsson skoraði tvennu fyrir heimamenn í 2-1 sigri sem bjargaði þeim frá falli. Við skulum sjá hvort að Þórsvöllur reynist Eyjamönnum jafn vel í ár og hann gerði árið 1992.

Staðan er enn markalaus eftir 0-0 mínútur.

17. apríl 2025 kl. 16:28

Markalaust í Eyjum

Staðan er 0-0 eftir 25 mínútna leik ÍBV og Víkinga í Eyjum. Stígur Diljan Þórðarson komst í ágætis færi fyrir Víkinga snemma leiks en annars eru liðin að leita að glufum.

17. apríl 2025 kl. 16:06 – uppfært

Mörkin úr leikjunum

Kári 2 - 1 Fylkir

Mörkin og rauðu spjöldin eru hér að neðan.

Víkingur Ólafsvík 7 - 1 Úlfarnir.

Mörkin eru hér að neðan.

Keflavík 1 - 0 Leiknir

Mörkin eru hér að neðan.

Mörkin úr leik Aftureldingar og Höttur/Huginn eru á leiðinni upp í Efstaleiti.

17. apríl 2025 kl. 15:58 – uppfært

Kári sló út átta Fylkismenn

Káramenn unnu Fylki í Akraneshöllinni! Kári er í 2. deild en Fylkir í næstefstu deild. Fylkismenn virtust í ágætis málum í upphafi og leiddu eftir sjálfsmark Oskars Wasilewski.

Ragnar Bragi Sveinsson og Eyþór Aron Wöhler fengu hins vegar báðir rautt spjald á skömmu kafla. Því voru Káramenn tveimur fleiri í seinni hálfleik. Fylkismenn fóru í skotgrafirnar en að lokum tryggðu Káramenn sér sigurinn.

Hektor Bergmann Garðarsson, sonur Garðars Bergmanns Gunnlaugssonar, jafnaði metin á 65. mínútu. Þór Llorens Þórðarson kom Káramönnum svo yfir á 89. mínútu. Guðmundur Tyrfingsson fékk svo sitt seinna gula spjald á 95. mínútu og þar með kláruðu Fylkismenn þremur færri.

Mörk úr leikjunum birtast hér innan skamms. Lengri umræða um hvern og einn leik auk viðtala verður svo í Bikarkvöldi klukkan 18:00 annað kvöld.

Víkingur Ólafsvík 7 - 1 Úlfarnir

Víkingur vann öruggan 7-1 sigur gegn 5. deildarliðið Úlfana. Úlfarnir komust þó yfir en eftir það tóku heimamenn öll völd og unnu öruggan sigur.

Keflavík 1 - 0 Leiknir

Keflavík vann Leiknir 1-0 í Lengjudeildarslag. Gabríel Aron Sævarsson skoraði eina mark leiksins á 23. mínútu.

Afturelding 5 - 0 Höttur/Huginn
Þá vann Bestu deildar lið Aftureldingar Hött/Huginn örugglega með fimm mörkum gegn engu.

17. apríl 2025 kl. 15:44 – uppfært

Allt í standi á Þórsvelli

Þórsvöllur lítur vel út. Okkar kona Edda Sif Pálsdóttir fylgist gaumgæfilega með málum á Eyjunni fögru og tók þessar myndir.

Sölvi Geir Ottesen og teymi Víkinga eru búnir að taka út völlinn.

Það er ekki að sjá að það sé eitthvað að þessu grasi.

Leikurinn hefst klukkan 16:00. Víkingar mæta með sitt sterkasta lið en ÍBV breyta aðeins til í byrjunarliði sínu frá því í deildinni.

Þórsvöllur í Vestmannaeyjum fyrir bikarleik ÍBV og Víkinga 17. apríl 2025.
Edda Sif Pálsdóttir

Þórsvöllur í Vestmannaeyjum fyrir bikarleik ÍBV og Víkinga 17. apríl 2025.
Edda Sif Pálsdóttir

Byrjunarliðin í ÍBV gegn Víking

ÍBV:
Hjörvar Daði Arnarsson(M)
Mattias Edeland
Bjarki Björn Gunnarsson
Arnar Breki Gunnarsson
Oliver Heiðarsson
Arnór Ingi Kristinsson
Alex Freyr Hilmarsson(F)
Felix Örn Friðriksson
Þorlákur Breki Þ. Baxter
Omar Sowe
Sigurður Arnar Magnússon

Víkingur:

Ingvar Jónsson(M)
Sigurður Arnar Magnússon
Helgi Guðjónsson
Daníel Hafsteinsson
Atli Þór Jónasson
Tarik Ibrahimagic
Karl Friðleifur Gunnarsson
Davíð Örn Atlason(F)
Matthías Vilhjálmsson
Gylfi Þór Sigurðsson
Stígur Diljan Þórðarson

17. apríl 2025 kl. 14:53

Fylkismenn sjá rautt í Akraneshöllinni

Þá er kominn hálfleikur í leikjunum fjórum.

Í Akraneshöllinni leiðir Fylkir 0-1 gegn Kára en Oskar Wasilewski skoraði sjálfsmark á 20. mínútu. Fylkismenn eru þó einungis níu en Ragnar Bragi Sveinsson fékk reisupassann á 33. mínutu og Eyþór Aron Wöhler fylgdi honum í sturtu rétt fyrir hálfleik.

Keflavík leiðir 1-0 gegn Leikni.

Víkingur Ólafsvík er 5-1 yfir gegn fimmtu deildar liði Úlfanna. Úlfarnir komust yfir en þá vöknuðu heimamenn í Ólafsvík til lífs.

Afturelding leiðir 2-0 gegn Hetti/Huginn.

17. apríl 2025 kl. 14:02 – uppfært

Fjórir leikir hafnir

Þá eru fjórir leikir farnir af stað. Við setjum inn mörkin úr þeim hingað inn að þeim loknum og uppfærum stöðuna í hálfleik og eftir leik.

Kári - Fylkir

Víkingur Ólafsvík - Úlfarnir

Keflavík - Leiknir

Afturelding - Höttur/Huginn

17. apríl 2025 kl. 13:58

Leikið á Þórsvelli

Þar sem verið er að leggja gervigras á Hásteinsvöll verður leik á Þórsvelli, steinsnar frá Hásteinsvelli.

Vestmanneyingar eru ekki á flæðiskeri staddir varðandi fótboltavelli því einnig hefði verið hægt að leika á Týsvelli og mögulega Helgafellsvelli.

Áhugamenn um vallarstæði geta kafað dýpra í málin í grein um flottustu velli Íslands, en þar fengu Týsvöllur, Helgafellsvelli og Hásteinsvelli. Þórsvöllur fékk hins vegar ekkert atkvæði.

17. apríl 2025 kl. 13:44

Spennandi einvígi á dagskrá

Aðalleikur dagsins er Bestu deildar slagur ÍBV og Víkinga.

ÍBV - Víkingur Reykjaví

Liðin eru bæði í Bestu deildinni og ljóst að strax í 32 liða úrslitum mun eitt lið þeirrar deildar kveðja bikarkeppnina. Víkingar hafa leikið til úrslita í Mjólkurbikarnum í fjögur ár í röð. Liðið lyfti bikarnum síðast árið 2023. ÍBV lauk keppni í 32 liða úrslitunum á síðasta ári og nú er spurning hvort Eyjamenn ætli framar þetta árið, liðið á heimaleik í dag.

Leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Kári - Fylkir

Knattspyrnufélagið Kári og Fylkir mætast í Akraneshöllinni klukkan 14:00. Kári sigraði leiki sína í fyrstu tveimur umferðunum af miklu öryggi. Fyrst var það KFS, þegar Kári sigraði 7-1, og enn stærri sigur var unninn gegn FC Árbæ, 8-1. Fylkir hóf leiki í annarri umferð og tryggði þar öruggan sigur á KV, 1-6.

Káramenn hafa í gegnum tíðina gert kalda Akraneshöllina að vígi og það er aldrei að vita hvað gerist uppi á Skipaskaga.

Eru Úlfarnir að fara að gera góða hluti á Ólafsvíkurvelli?https://www.nordicstadiums.com/ / Nordic Stadiums

Víkingur Ólafsvík - Úlfarnir

Liðin eru bæði komin framar en í fyrra þegar þau luku keppni í annarri umferð bikarsins. Því verður spennandi að sjá hvort liðið hefur betur á Ólafsvíkurvelli í kvöld.

Liðin eiga sér sögu því að Úlfarnir hafa áður slegið út Víking, einmitt á Ólafsvík.

Víkingur Ólafsvík er í 2. deild og Úlfarnir í 5. deild.

Keflavík - Leiknir

Keflavík og Leiknir spiluðu sig bæði inn í 16 liða úrslit árið 2023. Keflavík fór lengra í fyrra og lék í 8 liða úrslitum.

Liðin eru bæði í Lengjudeildinni og því má búast við jöfnum slag.

Afturelding - Höttur/Huginn

Sameinað lið Hattar og Hugins sækir Aftureldingu heim í Mosfellsbæinn. Mosfellingar eru nýliðar Bestu deildarinnar þar sem liðið hefur spilað tvo leiki og náð úr þeim einu stigi samtals. Afturelding náði inn í 16 liða úrslit bikarsins í fyrra. Höttur/Hörður spilaði síðast í 32 liða úrslitum árið 2020.

Höttur/Huginn er í 2. deild.