11. mars 2023 kl. 22:19
Menning og dægurmál

Loreen kom sá og sigraði í sænska Melodifestivalen

Söngkonan Loreen verður fulltrúi Svía í Eurovision söngvakeppninni eftir sigur í Melodifestivalen í kvöld með lagið Tattoo.

Sænska söngkonan Loreen sigraði í Melodifestivalen 2023 með laginu Tattoo.
CHRISTINE OLSSON/TT / NTB

Norðmennirnir Marcus og Martinus lentu í öðru sæti. Loreen hefur verið spáð sigri hvort tveggja heimafyrir og í stóru keppninni í Liverpool á Bretlandi eftir að fréttist af þátttöku hennar.

Loreen kom sá og sigraði eftirminnilega og með nokkrum yfirburðum árið 2012 með laginu Euphoria. Fari líkt og veðbankar spá, yrði sigur Svía þeirra sjöundi, og með því jafna þeir sigurmet Íra.

Þeir sigruðu fjórum sinnum á tíunda áratug síðustu aldar en undanfarin ár hafa ekki verið þeim mjög hagfelld.

Ísland er eitt Norðurlanda án sigurs, en hefur tvisvar lent í öðru sæti og tvisvar í því fjórða. Lagið Power með Diljá er sem stendur í 24. sæti veðbanka. Laginu Tattoo er streymt hvern einasta dag í hálfa milljón skipta á Spotify.