Langþráður draumur að halda rúningsnámskeið fyrir konur
Landinn leit inn á rúningsnámskeið Heiðu í Sveinungsvík í Langanesbyggð þar sem hún var að kenna fjórum konum handtökin. Sumar höfðu aldrei áður prófað að rýja á meðan aðrar voru að rifja upp handtökin eftir langt hlé.
Heiða segir að með námskeiðinu vilji hún fá fleiri konur í þessa atvinnugrein en líka leggja sitt af mörkum við að auka fagmennsku í rúningi.
Nemendur eru sammála um að það sé nokkuð erfitt að rýja enda sé mikið skap í íslensku sauðkindinni. Mikilvægt sé að hafa góða tækni. „Þetta er svo skemmtilegt, sérstaklega í nútímanum. Maður er náttúrlega alltaf að fíflast eitthvað í símanum eða í tölvunni og mér finnst þetta eiginlega vera svolítið langt í burtu frá raunveruleikanum og það sem við erum að gera hér, þetta er bara lífið einhvern veginn,“ segir rúningsneminn Romi Schmitz.