Kraftur í prentlist á Seyðisfirði
Prentverkið á sér langa sögu á Seyðisfirði. Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi, heldur prentsmiðjunni úti.
Tækniminjasafn Austurlands varðveitti ýmsar prentvélar frá listamanninum Dieter Roth en þær urðu aurskriðum að bráð.
Nú hefur aðstaðan verið byggð upp á ný með miklum glæsibrag og því er góður kraftur í prentlistinni á Seyðisfirði. Listamenn í samstarfi við Skaftfell nýta þessa góðu aðstöðu óspart og prenta verk sín meðal annars í tengslum við sýningar.
„Við reynum að bjóða upp á námskeið reglulega, bæði fyrir börn og fullorðna“ segir Kamilla Gylfadóttir verkefnastjóri í Skaftfelli.
Prentverkið er í samstarfi við ýmsa skóla, svo sem Menntaskólann á Egilsstöðum og Listaháskóla Íslands. Þar gefst nemendum kostur á að prenta verk sín og kynna sér gamlar og sígildar aðferðir.