Þekkir þjóðgarðinn eins og lófann á sér
Til eru þeir sem hafa augun á draumastarfinu í mörg ár og Ragnhildur Sigurðardóttir er ein af þeim. Hún tók nýverið við starfi þjóðgarðsvarðar í Snæfellsjökulsþjóðgarði og hún þekkir nesið eins og lófann á sér.
Meistaraprófsverkefni Ragnhildar var drög að fyrirhuguðum þjóðgarði á Snæfellsnesi og hana skortir ekki hugmyndir að verkefnum í því samhengi. „Mitt verkefni er meðal annars að tryggja að skútan sigli áfram“. Þjóðgarðurinn er orðinn 24 ára og glæsileg miðstöð var opnuð á Hellissandi fyrir tveimur árum.
„Það er mikið búið að hugsa og mikið búið að gera.“ Ragnhildur ætlar að gefa sér nokkra mánuði til að finna áherslum sínum farveg í verkefnum framtíðar. Meðal annars er starfsfólk hennar farið að undirbúa móttöku gesta á stórviðburði þegar sólmyrkvi verður í ágúst á næsta ári.