RÚV á samfélagsmiðlum

Leiðarvísir

Sækja sem PDF

Inngangur

Markmið RÚV er að nota skýrar og skilvirkar leiðir við miðlun efnis út í samfélagið. Samfélagsmiðlar eru ein af þessum leiðum og því er við hæfi að nýta þá til miðlunar frétta- og dagskrárefnis. Þetta er í samræmi við stefnu RÚV.

RÚV miðlar fréttum og fréttaskýringum á nútímalegan og aðgengilegan hátt allan sólarhringinn og kappkostar að miðla menningar- og dægurmálaefni með sem fjölbreyttustum hætti, í línulegri dagskrá í sjónvarpi og útvarpi og á stafrænu formi svo hver sem er geti notið þess þegar hentar. Reglubundin dreifing efnis á samfélagsmiðlum styður við stefnu RÚV.

Samfélagsmiðlar gera fólki kleift að eiga í samskiptum ásamt því að birta upplýsingar og efni af öllu tagi. Notkun samfélagsmiðla felur í sér tækifæri til samskipta við almenning og að koma efni RÚV á framfæri við margvíslega hópa hvort sem þeir fylgjast með línulegri dagskrá eða ekki.

Eitt af hlutverkum RÚV er að stuðla að lýðræðislegri umræðu. Miðlun á frétta- og dagskrárefni á samfélagsmiðlum er ákjósanleg leið til að ná fram markmiðum um aukna lýðræðisþátttöku almennings og kallast á við ályktanir Sameinuðu þjóðanna, Sambands evrópskra almannaþjónustumiðla og Evrópusambandsins í því efni.

RÚV hefur einnig það hlutverk að spegla tíðarandann í íslensku samfélagi. Til að það takist þarf að tryggja sýnileika á þeim miðlum sem almenningur notar hverju sinni.

RÚV gerir skýran mun á notkun samfélagsmiðla á eigin vegum og persónulegri notkun starfsfólks á samfélagsmiðlum. Siðareglur starfsfólks og vinnureglur um fréttir og dagskrárefni tengt þeim ná til persónulegrar notkunar starfsfólks á samfélagsmiðlum.

Viðmið

  • Efni á samfélagsmiðlum endurspeglar sömu frétta- og dagskrárstefnu og efni á öðrum miðlum RÚV. Við birtingu er fylgt málstefnu og aðgengisstefnu RÚV.
  • Tilgangur og markmið með dreifingu efnis á samfélagsmiðli skal metinn og veginn áður en stofnaður er nýr aðgangur á viðkomandi miðli. Ekki er heimilt að efna til nýrra síðna á samfélagsmiðlum í nafni RÚV án samþykkis og samráðs við framleiðslu- og kynningardeild
  • Fylgt skal dagskrárstefnu RÚV þegar ákveðið er hvers konar efni skuli dreifa, hvernig og fyrir hvaða markhópa. Tekið skal mið af styrkleikum hvers miðils . Þá verður þess gætt að notkun á viðkomandi samfélagsmiðli stofni trúverðugleika RÚV ekki í hættu.
  • Allt efni sem birtist í miðlum RÚV, hvort heldur er í sjónvarpi, útvarpi, hlaðvarpi eða öðrum miðlum kemur til greina að birta á samfélagsmiðlum. Gera skal grein fyrir uppruna alls efnis frá RÚV við miðlun og deilingu . Í texta sem birtist með færslum á samfélagsmiðlum er vísað til viðkomandi efnis og höfundar þess en forðast ber að taka afstöðu til gagnrýni eða skoðanapistla.
  • Gerður skal skýr greinarmunur á miðlun frétta- og dagskrárefnis annars vegar og kynningarefnis hins vegar. Áður en efni er dreift skal gæta að réttindamálum og að RÚV sé heimilt að miðla efninu eftir viðkomandi leiðum.
  • Efni sem valið er til birtingar á samfélagsmiðlum skal leitast við að endurspegla fjölbreytni í íslensku samfélagi í samræmi við stefnu RÚV.
  • Það efni sem birt er á samfélagsmiðlum lýtur sömu ritstjórnarreglum og efni sem birt er á öðrum miðlum RÚV. RÚV áskilur sér rétt til að eyða ummælum sem innihalda hatursorðræðu, persónuníð eða önnur skaðleg ummæli auk þess, eftir atvikum og alvarleika hvers tilviks, að útiloka notendur sem birta slíkar athugasemdir. Þegar aðgangi að samfélagsmiðli er lokað er það tilkynnt fyrir fram.
  • Heimilt er að greiða fyrir dreifingu á samfélagsmiðlum á einstaka dagskrárliðum og viðburðum þegar ástæða þykir til og margvísleg tækifæri nýtt til að stýra efninu og beina að réttum markhópum. Kynningardeild tekur ákvörðun um hvort og hvenær greitt er fyrir dreifingu efnis í samráði við dagskrárstjóra og/eða aðra ábyrgðarmenn efnisins.
  • RÚV nýtir sér samfélagsmiðla til að ná til barna og ungs fólks með fjölbreyttu og vönduðu efni. Tekið er tillit til aldurstakmarks hvers miðils fyrir sig og við það miðað þegar efni er dreift. Vandað skal til málfars og þess gætt að efnistök höfði til þess hóps sem efnið á að ná til.

Ríkisútvarpinu 10. mars 2025
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri